Um Þjóðhátíð sem fjölskylduhátíð.

Þjóðhátíð.

Þjóðhátíð Vestmannaeyja, þessi stærsta útihátíð landsins sem í ár verður haldin í 140. skiptið er rétt handan við hornið. Það eru 66 dagar í þetta þegar þetta er skrifað.

Hátíðin í ár stefnir í að verða langstærsta þjóðhátíðin til þessa. Þetta þori ég að segja því að hljómsveitir sem bókaðar hafa verið í ár eru fjölbreyttari en áður hefur verið og trekkja að ólíka hópa. Margir listamannanna hafa komið áður, en sumir eru að koma í fyrsta skiptið sem sýnir einmitt að þjóhátíðarnefnd er að velta fyrir sér stefnum og straumum, þó gömlu andlitin skjóti líka þarna uppi kollinum. Nú er búið að kynna eftirfarandi.

Quarashi-Kaleo-Mammút-Skítamórall-Jónas Sigurðsson-Sverrir Bergmann-Fjallabræður-Sálin Hans Jóns Míns-Skálmöld-Skonrokk-Helgi Björnsson-Jón Jónsson-Friðrik Dór-Emmsjé Gauti-Retro Stefsson-Páll Óskar. Þannig lítur þetta út þegar þriðju kynningu hljómsveita er lokið. 

En að þessari upptalningu lokinni hlýtur maður að spyrja sig hvað með börnin ?

Á heimasíðu hátíðarinnar segir "Þjóðhátíð er fjölskylduhátíð í háum gæðaflokki."  Ég spyr mig því í ljósi þess, verandi alinn upp við það að vera nær oftast á þjóðhátíð, en verandi nú foreldri sem vænti þess að höfðað sé til mín jafnt sem barnanna á fjölskylduhátíð.

Ég man að það var alltaf stórskemmtilegt að fara á brúðubílinn. Þar sátum við börnin í þyrpingu og borðuðum popp og risavaxinn sleikjó og horfðum á Lilla apa og öll skemmtilegu dýrin hennar Helgu Steffensen. Og viti menn, þetta get ég sýnt börnunum mínum nú uþb. 30 árum seinna. Þetta sama atriði og gefið þeim eins sleikjó og popp. En svo get ég líka boðið þeim að horfa á barnaball á litla pallinum eða horfa á söngvakeppni barnanna, og einnig get ég boðið þeim uppá frjálsíþróttasýningu eða fimleikasýningu. En ef mig er ekki að skjátlast er þetta þar með upptalið og nær óbreytt ár frá ári öll þessi ár.

Það er nefnilega risavaxið skarð í uppfærslu dagskrár þjóðátíðar. Það er einsog viljinn til að halda við þessari hlið þjóðhátíðar, fjölskylduátið sé enginn. Allt púðrið fer í það að gera kvöldin sem stærst,mögnuðust og um leið trekkja sem mestan fjölda að hátíðinni, sem svo á móti skapar tekjur fyrir hátíðarhaldara. Það er nefnilega þannig að börnin skapa ekki neinar tekjur fyrir þjóðhátíðina, þau eru hálfgerð "viðhengi" foreldranna sem reynum að koma inní þau þessari stemmingu sem við munum öll eftir síðan í æsku.

En satt best að segja renna þessar minningar bara saman í eitt hvað mig varðar allavega. Ár eftir ár sá ég það sama á daginn brúðubílinn,frjálsar og barnaball. Annars hljóp maður um dalinn og reyndi að sníkja pening af hinum og þessum mönnum, sem maður kallaði róna til að kaupa nammi fyrir, eða jafnvel leikfangabyssur sem voru enn áhrifameiri til þess að ná peningum af fyrrgreindum "rónum". Þegar kvöldvakan kom settist fjölskyldan niður á teppi í brekkunni og horfði á einhver "leiðinleg lög með einhverjum leiðinlegum köllum" sem foreldrarnir voru voða spenntir fyrir. Á meðan beið ég eftir að unglingarnir sem drösluðust með ískassana kæmu til að fá ís (annar af hápunktum kvöldanna fyrir börnin) áður en ég svo sjálfum komst á þann aldur og ákvað að eyða tímanum með að vera svona íssölumaður í brekkunni.  Svo var brenna,flugeldar eða brekkusöngur lokapunkturinn á kvöldinu hvað mig varðaði einsog þumalputtareglan er svona að jafnaði með börn í dalnum, og haldið var með mig heim í bekkjabíl og heim að sofa. Og svona held ég bara að þetta sé svolítið enn.

Þessi samvera fjölskyldunnar er bara hugsuð í þessari gömlu uppskrift og ekkert breytist. Er ekki kominn tími til að uppfæra eitthvað dagskránna með tilliti til barnanna?  Færum td. það sem börnin eru hangandi allt kvöldið bíðandi eftir framar, gerum daginn að frábærri skemmtun fyrir börnin og hugsum til barnanna okkar og um þarfir þeirra. Ég hef nefnilega tekið eftir því að sorglega fá börn eru í raun og veru í dalnum á daginn sem skilur eftir þá leiðinlegu staðreynd að samveran með fjölskyldunni er svolítið mikið á forsendum foreldranna þarna um kvöldið allt þar til flugeldar,brenna eða brekkusöngur slútta kvöldi barnanna.  

Ef við horfum á krakka í Herjólfsdal þá eru margir þar hlaupandi um langt frameftir án fylgdar foreldra eða forráðamanns en samkvæmt barnaverndarlögum er útivistatími barna 12 ára og yngri til 22:00 en 13-16 ára til 24:00  frá 1.maí - 1.september.

Það sem kannski vakir helst fyrir mér í þessum skrifum er að benda á að þetta tvennt fer kannski ekki saman. Að auglýsa þetta sem fjölskylduhátíð, en um leið einblína nær eingöngu á ungt fólk í sem eru að stíga sín fyrstu skref á útihátíðum og flykkjast til Vestmannaeyja þar sem þau koma saman við heimamenn sem eru nú uþb. eingöngu 20% af heildarfjölda í Herjólfsdal. Kannski erum við smátt og smátt að gleyma barnadagskránni í öllum asanum að græða á aðkomufólki ?

Td. legg ég til að bætt verði hressilega við barnadagskrána og jafnvel fært eitthvað af henni framyfir kvöldmatinn og henni líka gerð meiri skil í auglýstri dagskrá. Það er lítið spennandi að flétta gömlum dagskrám og sjá að hún er nánast orðrétt ár frá ári. Þessi litli pakki sem að því er virðist þarf bara að vera þarna.. En sjón er sögu ríkari  dagskrá2010     dagskrá2011   dagskrá2012    dagskrá2013

 

En kannski er ég að sjá þetta alrangt og hef stigið inná "jarðsprengjusvæði" og þætti mér þá gaman að fá það að vita. Það er jú bleikur fíll í herberginu. 

 

 

  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er góð grein, og ég er sammála. En það voru svolítið af stafsetningarvillum :)

Arnór (IP-tala skráð) 28.5.2014 kl. 01:13

2 identicon

Algjörlega sammála! Nákvæmlega sömu minningar og ég á af mínum æsku þjóðhátíðum.. mætti alveg fara að leggja aðeins meiri metnað í barnadagskránna!

Steinunn Hödd Harðardóttir (IP-tala skráð) 28.5.2014 kl. 04:53

3 identicon

Fjölskyldu-viðhengið er sennilega bara þarna inni til að styggja ekki Vestmannaeyinga algjörlega (og kannski til að réttlæta það að börnin séu innan um ofurölvað lið fram á miðnætti). Hvaða vísitölu fjölskylda ofan af landi/utan af landi haldið þið að taki ákvörðun um að skella sér á Þjóðhátíð með börnin eftir að hafa setið fyrir framan sjónvarpið og Lundi með Thule flösku birtist á skjánum? Höfðar nú sennilegast til annars markaðshóps. Markaðssetninging segir allt sem segja þarf.

Myndir þú njóta þín á tónleikum með börnin þín hlaupandi um allan salinn?

Helena Rut (IP-tala skráð) 28.5.2014 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband