Fimmvörðuháls, skýrlsa, Eyjafjallajökull

Ég var nú ekki hár í loftinu þegar eldgosið á Heimaey varð og satt besta að segja var ég ekki fæddur. En það gos er það gos sem hefur haft hvað mest áhrif á mig á minni ævi. Ég, alinn upp í Vestmannaeyjum hef frá því ég man eftir mér haft mikinn áhuga á sögum frá þeim tíma og hef fylgst náið með öllu sem viðkemur því gosi, hvort sem er í lestri bóka um gosið eða að skoða gamlar myndir.

Allt frá því að ég fæddist hafa nokkur eldgos orðið á Íslandi og hafa þau alltaf verið mér fjarlægri en gosið í Eyjum sem ég þó aldrei upplifði. Ég man kannski helst eftir að hafa horft á Heklugosið árið 1991 og man ég vel hvar ég var þegar það byrjaði og svo man ég eftir gosinu í Grímsvötnum árið 1996 sem leiddi til þess að í jökulhlaupi yfir Skeiðarássand var brúnni sópað burtu. Önnur gos eru mér lítið meira en bara lítil áminning um að ég bý á Íslandi. 

Nú er komið að því að ég upplifi í fyrsta skipti talsvert hamfaragos og fylgist náið með um leið í skjóli frá sjónvarps- og tölvuskjánum.  Þetta eru tvö mögnuð gos á sinn hátt sem hafa orðið þess valdur að fólk hefur þurft jafnt að næturlagi  og að degi til að kveðja heimili sín í óvissu hvenær leyfi fengist til að snúa til baka til að huga að skepnunum sem þekkja ekki annað en klukku náttúrunnar og skipta engu um hvað er að gerast í pólitík eða trúarbrögðum og hvað þá hjá stofnun Almannavarna á Íslandi.

Gosið við Fimmvörðuháls snéri heldur betur öllu á hvolf á Íslandi. Fólk talaði um hagnað vegna ferðamanna og ólíklegustu menn fóru að mála skilti sem á stóð ELDGOSAFERÐIR.  Hreint gullæði greip um sig í miðri kreppunni. Uppá jöklum fóru að sjást snjósleðar sem margir hafa staðið óhreyfðir í áratug og jeppakallar sem ekki voru allveg búnir að græja jeppann fyrir sumarið ruku af stað og þurftu margir hverjir að bíta í það súra epli að kanski hefði verið betra eftir allt saman að klára að græja jeppann og æða svo af stað. Gosið á Fimmvörðuhálsi var spennandi túristagos líkt og það var nefnt og ekkert ólíkt þeim gosum sem orðið hafa á minni ævi, lítil gos með takmörkuð áhrif á daglegt líf. Almenning þyrsti í að skoða gosið og pantaði sér þyrluflug líkt og árið 2007 væri komið aftur.

En líkt og gosið á Fimmvörðuhálsi rauf eilíft maus fréttamanna um Icesafe leið ekki nema rétt 2 tímar frá því að skýrsla rannsóknarnefndar sá dagsins ljós og fréttir þess efnis að gosinu við Fimmvörðuháls væri lokið, Nú hafði þessi skýrsla þaggað í náttúrunni. Þvílík og önnur eins skýrsla hefur aldrei áður komið út. Þegar þarna var komið við sögu sá ég hve lík þessi atburðarás væri orðin leiknum um stein, pappír og skæri sem menn grípa oft til þegar á að útkljá ágreining eða vandamál. Ég sagði frá þessari hugljómun minni í Facebook stöðufærslu við fréttina um lok eldgosins við Fimmvörðuháls og sagði að þrenning þessi yrði fullkomuð ef/þegar nýtt gos hæfist sem myndi þagga niður í skýrsluumræðunni. leidbeining leiksÞað gerðist strax um kvöldið og get ég því sagt að

Steinn = Gosið í Eyjafjallajökli,

Pappír = Icesave og Hrunskýrlsan, og að lokum

Skæri = Gosið við Fimmvörðuháls

 

því hvað sem þessu stórmagnaða gosið í Eyjafjallajökli líður þá komum við aftur að þessari skýrslu fyrir rest hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta kallar að sjálfsögðu á ný merki til að nota í leiknum og fylgja þau að sjálfsögðu með hér.

Þetta magnaða gos í Eyjafjallajökli er stórfenglegt að sjá á myndum líkt og Heimaeyjargosið var 1973 í öllum þeim stórfenglegu myndum sem lifa nú á póstkortum sem sýna í raun bara glansmynd hræðilegs eldgos sem fékk alla íbúa Vestmannaeyja til að kveðja heimili sín í óvissu um hvenær eða hvort þau nokkurntímann snéru aftur. En ég öfunda ekki þá sem verða hvað mest fyrir barðinu á þessum eldgosum, íbúar í sveitunum, dýrin og jafnvel fólk sem þetta snertir á einhvern hátt vegna flugbanns víðsvegar um Evrópu. En við getum prísað okkur sæl með að manntjón hefur ekki orðið af gosunum sjálfum, þó að sorglegur atburður hafi orðið tengdur því að fólk hafi ætlað að fara að skoða illa undirbúið, sem hlýtur að minna okkur ennfrekar á að fara varlega og skipuleggja okkur vel. Ef allt fer á versta veg eigum við frábærar björgunarsveitir sem sýna það reglulega á ári hverju að þær eru okkur nauðsynlegar og það sem gleymist of eru þær háðar stuðningi okkar.

En nú höfum við verið slegin með óhugnarlegu eldgosi sem aðeins er þó brotabrot af því sem Kötlugos verður þegar það nú byrjar. Þetta má teljast sem “general” prufa fyrir það gos og kannski á sinn hátt ákveðin æfing í viðbrögðum landsins og í raun alls heimsins við þvílíkum náttúruhamförum. Að því sögðu vill ég benda á þá gríðarlegu vinnu sem Almannavarnir, RÚV, lögregla og björgunarsveitir landsins hafa unnið og bið fólk að hafa það í huga um næstu áramót þegar kaupa á flugelda um næstu áramót af björgunarsveitunum og borga nefskatt sinn til Rúv með glöðu geði í stað þess að fitja uppá trýnið. Það er við hæfi að sýna þakklæti okkar sem heima sitjum og horfum á allar fallegu myndirnar, óhugnarlegu myndirnar, skemmtilegu fréttirnar og hræðilegu fréttirnar af öllu þessu tengdu í skjóli frá sjónvarpsskjá eða tölvuskjá okkar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband